Bloggafmæli Stefáns

Vil óska Stefáni Friðriki Stefánssyni til hamingju með bloggamælið, einnig hve snöggur hann er að eyða út commentum séu þau ekki nákvæmlega eins og hann óskar sér, þetta kalla ég hentistefnumann að birta allt óbreytt úr dagblöðunum og þola svo engar athugasemdir.

Jolli ánægður.

Ekki er annað að heyra en að Eyjólfur sé stolltur af sínum mönnum fyrir að ná jafntefli á heimavelli gegn arfaslöku liði Kanada, og við rétt mörðum jafntefli heima gegn smáliðinu Lichtenstein , nei nú er mál að linni, hafi Teitur verið með slakan árangur hjá KR í sumar þá er Eyjólfur tvofallt verri með landsliðið okkar, burt með manninn.
mbl.is Eyjólfur:„Mikil samkeppni um að komast í landsliðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

jafnrétti eða ekki ?

Var að velta því fyrir mér í tilefni af nýskipuðu jafnréttisráði skipuðu af ráðherra jafréttismála (sem er kona) að þar eru 6 konur en aðeins 3 karlar, hvaða jafnrétti er það ? er það virkilega þannig að jafnrétti á íslandi er á mannamáli aðeins kvenréttindi ?, langar að gá hvað menn segja um það.


Af hverju ?

Mér finnst  einkennilegt með bloggarann Helgu Sigrúnu Harðardóttur, hún skýtur föstum skotum og baunar í allar áttir, en svo ef maður vill gjarnan svara henni eða koma með athugasemdir eins og títt er um hér, þá kemur í ljós að hún hefur lokað fyrir  allar athugasemdir til sín , er það svona sem framsóknarmenn vilja vinna, tala en alls ekki HLUSTA ?, svo vill hún eflaust bara spjalla við eigið flokksfólk.

Nýr eigandi B & L = dýrari þjónusta

Vil endilega vekja athygli á mjög svo hárri verðlagningu hjá bifreiðaumboðinu Bílalandi (B & L) þ.e.a.s. verkstæðinu.  Mætti með nýlegan jeppling þar sem þurfti að skipta um abs-hring útaf bremsuljósi sem logaði stöðugt, reyndar var einnig skipt hinum megin í leiðinni án þess að ég væri spurður að því, fyrir þessa vinnu er ég rukkaður um tæpar fimmtíu þúsund krónur (50.000) sem mér finnst fáranlega dýrt, skyldi þetta vera eðlilegt eða hefur allt hækkað eftir eigendaskiptin ? 

Spaugilegt

Verð að viðurkenna að það er hálf hlægilegt hvernig sumir menn hlaupa út undan sér vegna hrakfara KR í boltanum í ár, það hlakkar þvílíkt í þeim að það hálfa væri nóg. En einn gengur samt lengst (Snorri Bergz) í hatri sínu eða minnimáttarkennd og óskar þess heitast að KR falli um deild, þá verði hann ánægður og sofi vel, ég verð að segja að slíkum mönnum er vorkunn.

 Mér finnst aumkunarlegt að nærast beint á óförum annarra, það fer lítið fyrir manngæsku þarna.

 


Laxveiði

Sagt er frá því í einu dagblaðanna í dag að Kalli í Pelsinum og félagar hafi veitt nálægt 100 löxum í Norðurá nýlega, þrátt fyrir að lítil veiði hafi verið víða að sögn vegna rigningarleysis. En er þetta ekki einum of mikil græðgi 100 laxar, mér finnst í lagi að veiða í soðið fyrir sig og sína og kannski nokkra í frystinn fyrir veturinn, en þetta kalla ég græðgi og ekkert annað. Ég veit að menn borga mikið fyrir þessi leyfi, en því ekki að nota sleppi-aðferðina Kalli ?

Fækkun barrtrjáa en hver vegna ?

Alveg er ég gáttaður á honum Birni Bjarnasyni og öðrum í Þingvallanefnd að ákveða að fórna hundruðum barrtrjáa í og við Þingvallakirkju og Valhöll, eingöngu til að komast á heimsminjaskrá hjá Sameinuðuþjóðunum. Mér skilst að trén þyki ekki nógu íslensk þar sem þeim var plantað fyrir 50-100 árum en eru ekki original eða þannig, en þá spyr maður sig hvaða tré hér á landi eru al-íslensk ? mér dettur bara Einirinn í hug af barrtrjám.

 Einnig finnst mér skrýtið að heyra ekkert frá t.d. Skógræktarfélagi Íslands um málið, er þeim alveg sama eða hvað ? mér finnst alltof lítið af stórum og stæðilegum trjám hér á landi og er ekki einn um þá skoðun veit ég.  Þetta eru flott grenitré sem fá að fjúka, tré sem eru fallega græn allt árið.

Gaman væri að fá álit fleiri á þessu. 

 


ódýrari lyf fyrir neytendur.

Íslenskur læknir í Svíþjóð Aðalsteinn Arnarson hefur hafið póstverslun á lyfjum til landsins, þarna er um mjög mikinn sparnað fyrir neytendur að ræða eftir því sem ég sá strax og því tilraunin mjög ánægjuleg og góður kostur fyrir þá sem þurfa að taka lyf að staðaldri.

En hvað skeður síðan, eftir að sjálfur landlæknir lýsti yfir því að honum litist mjög vel á þetta þá kemur opinbera stofnunin Lyfjastofnun fram með andmæli og aðfinnslur og reynir að stoppa þetta þarfa framtak, jafnvel þó forstjóri stofnunarinnar hefði líst því yfir í blöðum að væri innfluttningur alfarið á kennitölu viðtakanda þá væri ekkert athugavert við þetta, ekki veit ég hvað breyttist því Lyfjastofnun hyggst nú stöðva innflutninginn.

Er það virkilega svo að Lyfjastofnun ætli sér að verða óvinur neytenda hérlendis og standa með þeim aðilum sem í skjóli einokunnar okra svo á lyfjum til almennings að útlendingar hlægja þegar þeir sjá verðið ? svo er það kapítuli útaf fyrir sig að Apótekin Lyfja og Lyf og heilsa eiga orðið markaðinn hér og því ekki hægt að tala um nokkra samkeppni, einnig veit maður að lyf frá t.d. Actavis framleidd hér eru seld helmingi lægra verði t.d. í Kaupmannahöfn sem er óskiljanlegt.

Nú er lag fyrir nýjan heilbrigðisráðherra Guðlaug Þór að sýna nú úr hverju hann er gerður og gera þá undanþágu ef lögin um póstverslun lyfja banna hana í dag.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband